Fréttir

Þema ráðstefnunnar er – “Staða menntunar í þekkingarsamfélagi nútímans”

Það er við hæfi að kynna Olweusaráætlunina gegn einelti hér á stærstu ráðstefnu sem haldin hefur verið á Norðurlöndum um menntarannsóknir. Olweusaráætlunin er enda stærsta símenntunarverkefni í grunnskólum á Íslandi. Eineltisáætlunin hefur sérstakan bás og hafa fjölmargir kynnt sér verkefni okkar. Hér eru átta hundruð þátttakendur og hægt er að kynnast 550 mismunandi verkefnum sem verið er að rannsaka vítt og breitt á fræðasetrum á Norðurlöndunum. Staða menntunar í þekkingarsamfélagi nútímans er þema ráðstefnunnar og eru aðalfyrirlesarar fjórir, þar af einn frá Íslandi; Sigurjón Mýrdal, dósent við Kennaraháskóla Íslands.

Hér fylgir fréttatilkynning af vefsíðu KHÍ:

Norræn ráðstefna um menntarannsóknir

Geysigóð þátttaka á norrænni ráðstefnu í Kennaraháskóla Íslands.
Brennandi spurningar um menntun nú á dögum.
Hvers konar menntun stuðlar að því að nemendur af báðum kynjum verði fullgildir þegnar í nútímasamfélagi og hafi áhrif á þróun þess? Hvernig á að meta nám í nútímasamfélagi þar sem námsaðstæður hafa gjörbreyst? Hvað er athafnakenning (activity theory) og hvernig er hún notuð til að varpa ljósi á nám og hugtakaþróun í starfshópum stofnana þegar miklar breytingar eiga sér stað? Hvernig birtist hnattvæðingin í íslensku skólastarfi?

Þetta er meðal þess sem rætt verður dagana 11. – 13 mars nk. í Kennaraháskóla Íslands en þá verður haldin þar norræn ráðstefna um menntarannsóknir á vegum NERA, Samtaka um norrænar menntarannsóknir, en slíkar ráðstefnur eru haldnar árlega. Hafa þær verið mikilvægur vettvangur norrænna fræðimanna til að kynna og ræða rannsóknir á þessu sviði. Ráðstefnan er nú haldin í fyrsta skipti á Íslandi og er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti, verndari ráðstefnunnar.

Staða menntunar í þekkingarsamfélagi nútímans er þema ráðstefnunnar og eru aðalfyrirlesarar fjórir. Yrjö Engeström frá Finnlandi kynnir nýjar rannsóknir á námi og hugtakaþróun í starfshópum innan stofnana þar sem miklar breytingar eiga sér stað. Olga Dysthe frá Noregi fjallar um nýjar námsmatsaðferðir sem tengjast breyttum aðstæðum til náms í nútímasamfélagi. Madeleine Arnot frá Bretlandi fjallar um menntun sem miðar að því að nemendur verði fullgildir þegnar í nútímasamfélagi, óháð kyni, og geti þar með haft áhrif á samfélagsþróun. Sigurjón Mýrdal, dósent við Kennaraháskóla Íslands, beinir athyglinni að áhrifum hnattvæðingar á menntamál og mun einkum fjalla um nýjar hugmyndir og nýja tækni í íslenska menntakerfinu.

Ráðstefnan er fjölmennasta NERA ráðstefna sem hefur verið haldin til þessa. Verða þátttakendur um 800 talsins og munu 550 þeirra kynna eigin rannsóknir og fræðastörf, þar af 52 Íslendingar. Allur undirbúningur og skipulag ráðstefnunnar er á vegum Kennaraháskóla Íslands.