“Það er hægt að minna okkur á að öllum á að líða vel í skólanum,” segir Sigurður Ágústsson, skólastjóri Grunnskólans í Húnaþingi vestra.
Föstudaginn 2. október tóku nemendur í grunnskólanum þátt í dansfjöri gegn einelti í skólanum. Nemendum var blandað þvert á aldur, einn til tveir bekkir af hverju stigi saman í hóp. Jón Pétur Úlfljótsson danskennari lét hvern hóp vinna saman þvert á aldur og fjallaði um mikilvægi fyrirmynda eldri nemenda, mátt samstöðunnar og gildi þess að öllum líði vel.

Þegar hver hópur lauk dansfjörinu í íþróttamiðstöð komu nemendur aftur í skólann í 3-4 manna hópum þar sem nemandi af unglingastigi var hópstjóri. Þar hjálpuðust krakkarnir að við að teikna útlínur handa sinna og klippa út. Þá var nafn hvers nemenda ritað á höndina og límt í kringum sól sem komið var fyrir á vegg í anddyri. Síðan skilaði hver hópur einni eða fleiri tillögum að slagorði skólans gegn einelti. Nemendaráð mun svo fara yfir tillögurnar og ákveða með hvaða hætti slagorðið verður valið. Þegar slagorðið verður ákveðið verður það límt í miðju sólarinnar.