Eineltiskönnunin hefur verið lögð fyrir nemendur í 4.-10. bekk í 45 grunnskólum sem fylgja Olweusaráætluninni. Könnunin er fastur liður í starfsáætlun allra skólanna. Niðurstöður eru greindar og kynntar rækilega í skólasamfélaginu. Eftirlitskerfið (gæsla o.fl.) er til dæmis tekið í gegn í ljósi niðurstaðna. Mikilvæg samtöl skóla og heimila og kynningar og greining með nemendum eru á dagskrá. Í tímans rás hafa skólar fikrað sig áfram eða fest kynningarnar og umræðuna í sessi.

Hér er dæmi úr Melaskóla sem hefur verið með frá byrjun, 2002.

“Við erum búin að fara í 4.5.6.og 7. bekk og kynna niðurstöður. Við lögðum mikla áherslu á:

  • Segja frá og hvert þau gætu snúið sér, við hvern þau gætu talað. Það væri hugrekki að segja frá.
  • Fórum vel í hvað einelti væri, beint einelti, óbeint og neteinelti.
  • Klöguskjóða væri ekki til.
  • Að krakkarnir lærðu að segja við hvert annað, Hættu þessu, ég vil þetta ekki og viðbrögð við svona skilaboðum væru að hætta strax, bera virðingu fyrir öðrum  og hlusta á hvað væri sagt.

Núna erum við að fara inn á yngsta stigið með kynningu um leiki, að það gilda reglur í öllum leikjum sem allir verða að vera sammála um, hvernig maður ber sig að við að fá að vera með og gæta sín að verða ekki of ærslafull, hlusta þegar aðrir segja hættu o.s.frv.”

Laufey,

verkefnastjóri í Olweusarverkefninu.