Guðmundur Sighvatsson

Guðmundur Sighvatsson, skólastjóri Austurbæjarskóla var einn af frumkvöðlum og styrkum stoðum í Olweusaráætluninni. Hann skynjaði vegferð okkar með Olweusi frá upphafi og alla tíð. Við minnumst hans með þökk.

Kristín Magnúsdóttir, kennari við Austurbæjarskóla og verkefnisstjóri í skólanum í Olweusaráætluninni ritaði fallega grein í minningu Guðmundar sem birtist í Morgunblaðinu og sem hér er endurbirt:

Það er mikið lán og ekki sjálfgefið að njóta vináttu starfsfélaga og yfirmanna á vinnustað. Þeirrar gæfu hef ég fengið að njóta ríkulega um árabil , svo mjög að veitt hefur mikla lífsfyllingu. Það er með djúpri hryggð að ég rita minningarorð um fyrrum yfirmann, jafnaldra og kæran vin í meira en tvo áratugi, Guðmund Sighvatsson. Á löngum kennsluferli hef ég notið þess að vinna með fjölmörgu gáfuðu og færu skólafólki, en það er á engan hallað þegar ég segi að þar standi hann upp úr.

Af mörgum góðum eðlisþáttum Guðmundar minnist ég lítillætis hans. Honum tókst að stækka okkur samferðarfólk sitt. Mér finnst ég meiri manneskja af því að hafa unnið með honum. Þannig er góður stjórnandi og það verður aðeins sá sem býr yfir auðmýkt þess sem veit betur.

Á síðasta starfsári sínu í Austurbæjarskóla gekk Guðmundur í starf skólaliða samhliða krefjandi skólastjórastarfi. Hvernig sem viðraði stóð hann útivaktina, bæði í morgunfrímínútum og í hádegishléi, þótt heilsan væri ekki góð. Hann sinnti því af sömu alúð og trúmennsku og starfi sínu sem æðsti stjórnandi. Þegar það var ámálgað við hann af samstarfsfólki að þetta væri alveg ótækt vísaði hann því brosandi á bug og sagðist njóta þess að kynnast börnunum betur. Hann skildi að kennarar þurftu sín hlé og tók þetta á sig þegar ekki fékkst annað starfsfólk. Þegar hrafnahjón gerðu sér svo laup ofan við útidyr í friðsælu páskaleyfi lét Guðmundur aftengja skólabjölluna og tók sér þá gömlu í hönd. Hrafnamóður mátti ekki styggja. Hún skyldi njóta friðhelgi í Austurbæjarskóla.

Allt sem sneri að velferð nemenda var honum hjartans mál, einkum ef það gat lyft undir þá sem minna máttu sín. Þannig greip hann það tveim höndum að opna Austurbæjarskóla upp á gátt fyrir nemendum af erlendum uppruna. Það var hans fólk. Hann var afar stoltur af því að skólinn skyldi verða móðurskóli í fjölmenningu. Í því kristallaðist mannúðarstefnan sem honum var svo hugleikin.

Guðmundur hafði til að bera leiftrandi gáfur og svo einstaka hlýju og útgeislun að hann gat talað mann inn á nánast hvað sem var. Það var ekki fyrr en gengið var af hans fundi að tvær grímur runnu stundum á mann. En aldrei vildi maður bregðast trausti hans hvað sem á gekk.

Guðmundur var örlátur á sjálfan sig og gjafmildur á tíma sinn svo af bar. Aldrei sást hann skipta skapi þótt vinnudagar væru langir og mikill erill. Allir töldu sig eiga eitthvað í honum. Nemendur leituðu til hans. Hvert haust og hvert vor var jafn mikil eftirvænting eftir að heyra ræðuna hjá honum sem ætíð var ávísun á góðan hlátur, svo orðheppinn var hann.

Minningarnar um Guðmund verma og blása lífi í hugsjónaglæður sem bærast í brjósti. Eitt af mörgu góðu við að eldast er að mörkin milli anda og efnis verða óljósari. Þú finnur betur fyrir styrk þess góða sem þegið hefur verið á langri leið. Slíkan fjársjóð skilur Guðmundur eftir hjá okkur sem nú syrgjum hann. Far vel, kæri vinur, hafðu þökk fyrir allt og allt. Konu hans og ástvinum öðrum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

 

.