Eineltiskönnunin er mikilvæg undirstaða.

Almennt má fullyrða að eineltiskönnun okkar í Olweusarverkefninu sé einn allshjerjar púls á mat nemenda um stöðu sína í skólanum. Þau svara því í könnuninni hvort þau eigi góða vini/vinkonur í skólanum, hvernig þeim líki í skólanum. Við mælum einelti í skólanum, tegund eineltis sem nemendur lenda í, hversu lengi þau hafi verið lögð í einelti, hvar einelti eiga sér stað, hvort þau segi frá eineltinu bæði í skóla og heima og vinum eða vinkonum, hvort þau óttist að verða lögð í einelti – af því að það er ekki gefið að óttinn hverfi þó að einelti mælist ekki lengur. Eineltið leggst á einstakling og skapar vanlíðan sem hverfur ekki á einni nóttu. Við leggjum mat á og greinum niðurstöður með skólunum – og skólinn stikar veginn fram eftir að hafa endurmetið eftirlitskerfi skólans.

Fleiri nemendur kvarta undan vanlíðan og vinatengsl eru ekki hin sömu og áður. Við höfum ekki haldbærar skýringar á því af hverju nemendum líkar ekki vel í skólanum. Hvernig stendur á því að mörgum börnum og ungmennum líði ekki vel. Og að þeim fækki hlutfallsega sem segi að þeim líki vel í skóanum. Mest hefur breytingin orðið hjá stelpum. Helmingi fleiri stúlkur í 5.-10. bekk segja nú (haustið 2018) að þem líki illa eða mjög illa í skólanum en haustið 2011.

Þegar þjóðin sigldi inn í  efnhagskreppu brýndum við fyrir starfsmönnum skólanna að vera sérstaklega á varðbergi. Skólafólk og foreldrar lögðu mikla áherslu á velferð barnanna. Nú er aftur á móti eins og staðan hafi smám saman breyst verulega – sé litið yfir sviðið almennt. Það er fyrir öllu að skólasamfélagið einbeiti sér að mörgum þáttum í umhverfi því sem nemendur ferðast í. Verkefnin eru á fjölmörgum sviðum. Árangur næst ef starfsfólk skólanna vinnur heildstætt og í góðri samvinnu við foreldrana.
ÞHH