Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur sett nýja reglugerð sem kveður á um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Öllum vinnustöðum verður skylt að gera áætlun um aðgerðir til að sporna við þessum þáttum og um viðbrögð ef á reynir. Athygli vekur að atvinnurekanda verður skylt að gera áhættumat. Á grundvelli þess mats m.a. skal byggja forvarnaráætlun. Þar verði vinnuaðstæðum háttað að “dregið sé úr hættu á að aðstæður skapist sem lýkur verði á að leitt geti til eineltis, … ”
Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er öllum vinnustöðum skylt að gera áhættumat með því að greina hugsanlega áhættuþætti sem ógna öryggi. Í nýju reglugerðinni er með skýrum hætti kveðið á um að við gerð áhættumatsins skuli meðal annars greina áhættuþætti eineltis, áreitni og ofbeldis á vinnustað, líkt og tiltekið er í reglugerðinni, þar sem tekið skuli tillit til andlegra og félagslegra þátta, svo sem aldurs starfsmanna, kynjahlutfalls, ólíks menningarlegs bakgrunns starfsfólks, skipulags vinnutíma, vinnuálags og fleira. Áhættumatinu er þannig ætlað að taka mið af aðstæðum á hverjum stað.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir setningu reglugerðarinnar mikilvægan áfanga og vonast til að betur verði tryggt að tekið sé skipulega, faglega og af festu á einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.