Fréttir

Viðbrögð skólanna við einelti og að koma í veg fyrir einelti hafa batnað til muna í samræmi við vinnuna í eineltisáætluninni

Verulegur árangur af Olweusaráætlun gegn einelti í grunnskólum:
Dregur úr einelti um 34%.

Þá fækkar þeim um rúmlega þriðjung sem leggja aðra nemendur í einelti: Um 34% í yngri deildum og 35% í þeim eldri.

Viðbrögð skólanna við einelti og að koma í veg fyrir einelti hafa batnað til muna í samræmi við vinnuna í eineltisáætluninni:
Kennarar og aðrir fullorðnir grípa frekar í taumana. 46% nemenda í 8. – 10. bekk segja að þau reyni að stöðva einelti, en 39% nemenda svöruðu á sama veg í fyrra. 42% nemenda í 8. – 10. bekk segja að umsjónarkennarar geri ”fremur lítið” eða ”lítið eða ekkert” til að koma í veg fyrir einelti í bekknum undanfarna mánuði. Í fyrra var sambærileg tala 58%.

Og á sama hátt hafa fleiri foreldrar sagt frá hafi barn þeirra lent í einelti:
60% aðstandenda nemenda í 8. – 10. bekk hafa haft samband við skólann hafi barn þeirra lent í í einelti. Í fyrra var svarshlutfallið 48%.
60% foreldra í 4. – 7. bekk leita til skólans í ár en voru 55% í fyrra.

Dregið hefur úr hvers konar athöfnum sem benda til þess að einelti geti verið í aðsigi eða að einelti sé til staðar. Nemendur eru inntir eftir því hvort þeir hafi orðið fyrir stríðni á óþægilegan eða meiðandi hátt, útilokun, spörkum eða hrindingum, rógburði, að peningar eða annað hafi veri tekið af þeim eða eyðilagt, þeim ógnað eða að þau hafi verið neydd til að gera eitthvað sem þau vildu ekki, þau hafi orðið fyrir meiðandi athugasemdum um húðlit eða erlendan uppruna – eða athugasemdum eða látbragði með kynferðislegri tilvísun. Í öllum tilvikum hefur dregið úr.

Skólarnir fá margvíslegar upplýsingar um aðbúnað og staði í skóla eða í umhverfinu sem nemendur segja að séu til þess fallnir að leggja aðra í einelti. Algengast er að nemendur verði fyrir einelti á göngum skólans, en þar næst á skólalóðinni. Athyglisvert er að þar sem salerni eru lokuð fyrir hvern og einn er enelti ekki til staðar, en hins vegar segja 6-7% af þeim sem verða fyrir einelti að þau verði fyrir því á klósettum skólans. Ef skólar væru hannaðir þannig að salernin væru lokuð mætti því gera ráð fyrir að ekkert barnanna verði fyrir þessu ofbeldi.

Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunar og um Olweusarverkefnið gegn einelti er að finna á netsíðum menntamálaráðuneytisins; http://www3.menntamalaraduneyti.is/ og á síðu Olweusarverkefnisins:; olweus.is.