Eineltiskönnun er fastur liður í Olweusaráætlun gegn einelti og andfélagslegri hegðun. Áætlunin byggir á kerfi Dans Olweusar, prófessors við Háskólann í Björgvin í Noregi. Könnunin er að jafnaði lögð fyrir alla nemendur í 5.- 10. bekk á hverju skólaári í grunnskólum sem taka þátt í Olweusaráætluninni.
Persónuvernd er upplýst um könnunina. Síðast haustið 2018. Könnunin er ekki persónugreinanleg. Framkvæmadstjóri Olweusaráætlunarinnar á Íslandi hefur yfirumsjón með könnuninni. Veitir hann umsjónarmanni könnunarinnar í viðkomandi skóla aðgang að könnuninni, en sá aðgangur rennur út við lok hvers skólaárs. Í umsjóninni felst m.a. að skrá fjölda nemenda eftir kyni í hverjum árgangi. Hverjum nemanda fyrir sig er úthlutað sjálfvirku lykilorði (kynbundið) sem nemandi styðst við til að svara rafrænt. Þegar könnuninni er lokið hjá viðkomandi nemanda lokast aðgangur um lykilorð. Eftir standa órekjanleg svörin og upplýsingar um fjölda stúlkna annars vegar og pilta hins vegar sem hafa svarað könnuninni. Skilyrt er að til að birta niðurstöður þarf fjöldi í hverjum hópi að vera að lágmarki 25 af hvoru kyni.
Áður en kemur að því að leggja könnunina fyrir eru forráðamenn nemenda upplýstir um hvað til standi. Ef einhver nemandi óskar þess að taka ekki þátt verður sú ósk að koma skriflega með undirskrift forráðamanns.
Þegar niðurstöður könnunarinnar liggja fyrir eru niðurstöður greindar og fjalla starfsmenn sérstaklega um eftirlitskerfið og annað sem endurskoða ber til að tryggja betur stöðu nemenda.
Þorlákur Helgi Helgason,
framkvæmdastjóri Olweusaráætlunarinnar á Íslandi.