130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 735  —  439. mál.

Svar menntamálaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar um Olweus-átak gegn einelti í grunnskólum.
    1.      Hvaða grunnskólar taka þátt í Olweus-átakinu gegn einelti og hversu margir nemendur, starfsmenn og foreldrar taka þátt í því?
Í desember 2000 skipaði samráðsnefnd grunnskóla að beiðni menntamálaráðherra starfshóp um aðgerðir gegn einelti. Í samráðsnefnd grunnskóla eiga sæti fulltrúar frá menntamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og samtökum kennara og skólastjóra. Hlutverk starfshópsins, sem skipaður var fulltrúum frá öllum fyrrgreindum aðilum auk fulltrúa Heimilis og skóla, var að gera tillögur að samræmdri aðgerðaáætlun fyrir grunnskóla um hvernig skuli bregðast við einelti.
Forsaga málsins er sú að árið 1998 fól menntamálaráðuneytið Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála að rannsaka umfang og eðli eineltis í íslenskum grunnskólum. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í september 1999. Í framhaldi af rannsókninni gerði stofnunin aðra rannsókn á úrræðum skóla við lausn á eineltisvandamálum og lágu niðurstöður fyrir í september 2000. Markmið þeirrar rannsóknar var að kanna hvernig tekið væri á eineltismálum í skólum og hvernig foreldrar, nemendur og sérfræðingar tengdust því ferli.
Starfshópur samráðsnefndar grunnskóla hafði þessar rannsóknir til hliðsjónar við tillögugerð sína um forvarnir í grunnskólum. Í tillögum, sem menntamálaráðherra samþykkti var m.a. gerð grein fyrir hugmyndum norska prófessorsins Dans Olweus, sem hefur þróað aðgerðaáætlun gegn einelti í grunnskólum. Áætlunin byggist á niðurstöðum viðamikilla rannsókna og áratuga vinnu. Þar sem aðferðum Olweus hefur verið beitt í grunnskólum í Noregi hefur eineltið minnkað um 30–70%, auk þess sem skemmdarverk og önnur hegðunar- og samskiptavandamál minnkuðu verulega. Þess má geta að Dan Olweus hlaut lýðheilsuverðlaun Norðurlanda 2002 vegna forvarnagildis verkefnisins. Bandarískir sérfræðingar völdu Olweus-kerfið eina af tíu bestu aðferðunum til þess að draga úr ofbeldi og glæpum meðal ungmenna í Bandaríkjunum.
Í Noregi hefur ríkisstjórnin hrint af stað átaki þar sem kerfi Olweus er lagt til grundvallar og er öllum skólum gefinn kostur á að taka þátt í átakinu og innleiða kerfið.
Hér á landi var kerfi Olweus kynnt á málþingi um einelti sem menntamálaráðuneytið efndi til í nóvember 2001 þar sem Dan Olweus var aðalfyrirlesari. Í kjölfar ráðstefnunnar ákvað samráðsnefnd grunnskóla að fela starfshópnum, sem áður er nefndur, að undirbúa framkvæmd aðgerðaáætlunar hér á landi að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins og annarra hlutaðeigandi aðila og að verkefnið yrði samstarfsverkefni ráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla.
Styrktaraðilar eru, auk menntamálaráðuneytisins, Kennarasamband Íslands og þátttökusveitarfélögin. Kennaraháskólinn hefur einnig styrkt verkefnið á myndarlegan hátt, m.a. með því að sjá framkvæmdastjóra fyrir húsnæði.
Olweus-verkefnið fór af stað á Íslandi haustið 2002 með þátttöku 43 skóla og aðild nokkurra skólaskrifstofa og Háskólans á Akureyri. Haustið 2003 bættust tveir skólar við svo að nú eru 45 skólar virkir í verkefninu. Af þeim eru tíu í Reykjavík, fjórir á Vesturlandi, sjö á Vestfjörðum, þrír á Norðurlandi vestra, tíu á Norðurlandi eystra, tveir á Austurlandi, einn á Suðurlandi, fjórir á Reykjanesi og fjórir í Kópavogi. Að auki eru fjórar skólaskrifstofur virkar í samstarfinu. Sundurliðun er í meðfylgjandi töflu.
Samtals eru í þessum skólum á fjórtánda þúsund nemendur eða þriðjungur allra grunnskólanemenda í landinu. Þá eru allir starfsmenn skólanna og starfsfólk tengdra stofnana þátttakendur og hafa um 2400 starfsmenn tekið markvisst þátt í Olweus-verkefninu.
Samhliða verkefninu njóta 18 sérstakir verkefnisstjórar handleiðslu Olweus-hópsins í Björgvin í Noregi og eru verkefnisstjórarnir jafnframt faglegir leiðbeinendur í skólunum. Stefnt er að því að verkefnisstjórar verði áfram leiðbeinendur þegar fyrstu áætlun lýkur vorið 2004 og nýir skólar bætast við.

 

Þátttakendur í Olweus-verkefninu 2002–2004.

Móðurskóli Nemar Handb.fj. Samstarfsskólar Nemar Handb.fj.
Austurbæjarskóli 611 83 Melaskóli 622 73
Vesturbæjarskóli 310 52
Engjaskóli 431 55 Víkurskóli 431 39
Klébergsskóli 163 25
Réttarholtsskóli 322 53 Breiðagerðisskóli 378 62
Seljaskóli 676 100
Ölduselsskóli 587 90
Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga 8 Grunnsk á Hellissandi 97 24
Grunnsk. í Ólafsvík 174 30
Grunnsk. í Grundarfirði 204 31
Grunnsk. í Stykkishólmi 204 42
Patreksfjörður 117 23 Grunnsk. á Tálknafirði 62 15
Bíldudalsskóli 36 6
Birkimelsskóli 18 4
Grunnskólinn á Ísafirði 546 75 Flateyri 38
Suðureyri
Árskóli, Sauðárkróki 464 80 Varmahlíðarskóli 110 30
Grunnskóli Siglufjarðar 217 45
Húsabakkaskóli 53 20 Árskógarskóli 67 15
Grunnskólar Ólafsfirði 172 40
Háskólinn á Akureyri 1 Glerárskóli 450 50
Brekkuskóli 548 75
Félags- og skólaþjónusta Þingeyinga Borgarhólsskóli 415 72
Öxarfjarðarskóli 74 20
Heppuskóli 123 16 Hafnarskóli 161 24
Vallaskóli 903 135
Grunnskólinn í Sandgerði 269 57 Heiðarskóli 495 62
Njarðvíkurskóli 411 62
Gerðaskóli 215 39
Smáraskóli 635 90 Hjallaskóli 472 73
Snælandsskóli 461 75 Salaskóli 300 40
Húsavíkurkaupstaður 6
Samtals 6198 961 6844 1056

    2.      Hvernig metur ráðherra árangur af átakinu til þessa og hvers væntir hann af því á komandi árum?
Einelti í grunnskólum hefur verið í brennidepli undanfarin ár og hafa ýmsir látið málið til sín taka. Einelti er alvarlegt mál og mikilvægt er að bregðast við á faglegan hátt. Olweus- verkefnið er dæmi um markviss vinnubrögð sem byggjast á fagmennsku og áratuga löngum rannsóknum og miðast við að skólar taki á heildrænan hátt upp skipulagt kerfi til að takast á við og fyrirbyggja einelti. Þótt gert sé ráð fyrir að það taki hvern skóla tvö ár að innleiða kerfið er ekki litið svo á að verkefninu ljúki að tveimur árum liðnum heldur á kerfið að verða eðlilegur hluti af skólastarfi viðkomandi skóla. Styrkur verkefnisins felst ekki síst í því að allir starfsmenn skólanna taka þátt í því og fá leiðsögn og fræðslu allan tímann auk náins samstarfs við foreldra.
Verkefnisstjórarnir gegna nú lykilhlutverki, en þeir eru flestir námsráðgjafar eða kennarar. Þeir eru 18 talsins og hafa notið fræðslu og leiðsagnar norsku sérfræðinganna, þar á meðal Dans Olweus, með reglubundnum kennslulotum hér heima. Að loknu tveggja ára tímabilinu verða þeir „löggiltir“ sérfræðingar í Olweus-kerfinu og geta tekið að sér leiðsögn annarra.
Í nóvember 2002 var könnun á einelti í þátttökuskólum lögð fyrir alla nemendur í 4.–10. bekk. 11,5% nemenda í 4.–7. bekk sögðust vera lagðir í einelti en 7,6% nemenda í 8.–10. bekk. Í nóvember 2003 var aftur lögð fyrir könnun í sömu skólum og ættu niðurstöður hennar að liggja fyrir snemma árs 2004. Sýnt hefur verið fram á mælanlegan árangur verkefnisins í Noregi.
Þegar eineltismál hafa komið upp í þátttökuskólunum eru þau strax sett í markvissan farveg þar sem unnið er eftir ákveðnu kerfi sem allir starfsmenn skólans þekkja og hafa fengið fræðslu og leiðsögn um á tveggja ára tímabilinu. Starfsmenn skólanna geta því tekið mun ákveðnar á málum en ella og af meira öryggi í samstarfi við foreldra. Foreldrar vita að afdráttarlaust er tekið á eineltismálum og að umsjónarkennarar gegna mikilvægu hlutverki í meðferð þeirra mála. Gefinn hefur verið út vandaður bæklingur til að upplýsa foreldra m.a. um hvernig bregðast eigi við einelti.

    3.      Hversu margir skólar hafa sótt um að taka þátt í Olweus-átakinu gegn einelti frá haustinu 2004? Hvar eru þessir skólar á landinu?
Menntamálaráðuneytið kannaði í júní 2003 áhuga grunnskóla á þátttöku í nýjum áfanga Olweus-verkefnisins sem fyrirhugað var að hefja haustið 2004 ef næg þáttaka fengist. Mikill áhugi kom fram meðal grunnskóla og sveitarfélaga á að taka þátt í verkefninu. Af þeim sökum hafa samstarfsaðilar ákveðið að hrinda af stað nýju verkefni og Þorláki Helgasyni framkvæmdastjóra falið að gegna starfinu áfram.
Nú þegar hafa 55 skólar sótt um þátttöku frá haustinu 2004 sem skiptast nokkuð jafnt á milli kjördæma í landinu. Heildarnemendafjöldi þessara 55 skóla er tæplega 15.000. Sundurliðun er í töflunni.

Nemar haust
Skóli 2001 2003 Skólagerð
Reykjavík
Foldaskóli 639 600 1.–10. b.
Vogaskóli 410 411 1.–10. b.
Húsaskóli 468 452 1.–10. b.
Langholtsskóli 538 553 1.–10. b.
Selásskóli 411 372 1.–10. b.
Laugalækjarskóli 284 289 8.–10. b.
Korpuskóli 200 199 1.–10. b.
Hólabrekkuskóli 595 574 1.–10. b.
Rimaskóli 815 784 1.–10. b.
Árbæjarskóli 806 796 1.–10. b.
Hamraskóli 361 349 1.10. b.
Brúarskóli 0 20 1.–10. b.
Grandaskóli 412 355 1.–7. b.
Álftamýrarskóli 363 358 1.–10. b.
Hagaskóli 518 591 8.–10. b.
    Nemendur samtals: 6820 6703
    Norðvesturkjördæmi
Grunnskólinn í Borgarnesi 311 1.–10. b.
Kleppsjárnsreykjaskóli 123 1.–10. b.
Laugagerðisskóli 41 1.–10. b.
Drangsnesskóli 30 1.–10. b.
Andakílsskóli 34 1.–5. b
Grunnskólinn á Þingeyri 61 1.–10. b.
Grunnskóli Bolungarvíkur 144 1.–10. b.
Súðavíkurskóli 32 1.–9. b.
Grunnskóli Húnaþimgs vestra 178 1.–10. b.
Grunnskólinn á Blönduósi 137 1.–10. b.
    Nemendur samtals: 1091
    Norðausturkjördæmi
Dalvíkurskóli 256 1.–10. b.
Hrafnagilsskóli 189 1.–10. b.
Grunnskóli Skútustaðahrepps 82 1.–10. b.
Vopnafjarðarskóli 113 1.–10. b.
Grunnskólinn í Breiðdal 36 1.–10. b.
Nesskóli, Neskaupstað 225 1.–10. b.
Grunnskólinn á Stöðvarfirði 47 1.–10. b.
Grunnskólinn á Eskifirði 154 1.–10. b.
Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar 98 1.–10. b.
Valsárskóli 81 1.–10. b.
Grunnskóli Raufarhafnar 45 1.–10. b.
Grunnskóli Djúpavogs 75 1.–10. b.
Fellaskóli 103 1.–10. b.
    Nemendur samtals: 1504
    Suðurkjördæmi
Hamarsskóli í Vestmannaeyjum 324 1.–10. b.
Barnaskóli Vestmannaeyja 457 1.–10. b.
Hvolsskóli 227 1.–10. b.
Þykkvabæjarskóli 33 1.–7. b.
Flúðaskóli 181 1.–10. b.
Villingaholtsskóli 20 1.–7. b.
Grunnskólinn í Þorlákshöfn 238 1.–10. b.
Grunnskólinn í Hveragerði 373 1.–10. b.
Ljósafossskóli 52 1.–10. b.
Grunnskólinn í Grindavík 408 1.–10. b.
Flóaskóli 57 1.–7. b.
Brautarholts- og Gnúpverjaskóli 60 1.–7. b.
BES 170 1.–10. b.
Kirkjubæjarskóli 84 1.–10. b.
    Nemendur samtals: 2684
    Suðvesturkjördæmi
Setbergsskóli í Hafnarfirði 741 1.–10. b.
Öldutúnsskóli í Hafnarfirði 696 1.–10. b.
Skólaskrifstofa Mosfellsbæjar
Varmárskóli í Mosfellsbæ 826 1.–10. b.
Digranesskóli 501 1.–10. b.
    Nemendur samtals: 2764
Samtals 14863

    4.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að öllum grunnskólum hér á landi gefist kostur á að taka þátt í Olweus-átakinu á næstu árum?
Menntamálaráðherra hefur lagt sérstaka áherslu á að aðgerðir gegn einelti í grunnskólum séu faglegar og markvissar og beitt sér fyrir því að verkefnið nái fram að ganga með öflugum fjárstuðningi frá upphafi. Veittur var 5 millj. kr. styrkur til verkefnisins á árunum 2002–2004 og nú hefur hefur ráðherra ákveðið að veita áframhaldandi styrk sem nemur 3 millj. kr. árlega til 2006.
Ráðuneytið veitir verkefninu fjárhagslegan stuðning, en það er undir hverju sveitarfélagi komið að ákveða hvort grunnskólarnir þar taka þátt í verkefninu. Olweus-verkefnið er fyrst og fremst endurmenntunarverkefni fyrir allt starfsfólk skólanna og hafa sveitarfélög og einstakir skólar nýtt sér það. Verkefnið hefur reynst vel og greiðlega hefur gengið að aðlaga það íslenskum aðstæðum. Það er nú þegar orðið eitt umfangsmesta endurmenntunarverkefnið í íslenskum grunnskólum.
Þegar er hafinn undirbúningur að næstu lotu og stýrihópur samstarfsaðila fer nú yfir þær umsóknir sem borist hafa um þátttöku. Fjöldi skólanna í næstu lotu mun ráðast af mannafla til leiðsagnar (verkefnisstjóra) og fjármagni.
Menntamálaráðuneytið lítur mjög jákvæðum augum á verkefnið og mun fylgjast vel með framvindu þess og árangri á næstu árum. Sjálfsagt er að skoða hvernig unnt verði að bregðast við ef fleiri skólar óska eftir þátttöku í framtíðinni. jv=12; jv=13;