Staður: Neskirkja,
Reykjavík

22. nóvember 2013 klukkan 9-16.

Málþingið er opið öllu áhugafólki.

Kæru skólastjórnendur
Það er mér sönn ánægja að kalla til opins málþings um Olweusaráætlunina gegn einelti.
Rúmur áratugur er að baki og frá mörgu að segja og fræðast um.
Árangur okkar, viðhorfsbreytingar, vinnubrögð, samstarf, vinnuferli, glíman við lausnir, reynslusögur, … allt er undir og til umfjöllunar þennan dag.
Dagskráin skiptist í tvennt:

Fyrir hádegi munu flutt erindi og reynslu miðlað.
Eftir hádegi verða málstofur/vinnustofur, þar sem gefst kostur á að sækja a.m.k. tvær stofur.

Skólum gefst kostur á að kynna starfið á sérstökum veggspjöldum. Upplýsingar þurfa að berast til mín fyrir 10. nóvember. Prentmet ehf. mun aðstoða okkur við framsetningu, umbrot og uppsetningu en vitaskuld geta skólar komið með tilbúið efni til sýningar. Mikil gögn liggja í skólunum sem gagnlegt er að draga fram og koma með á málþingið 22. 11.
Það verður án efa lærdómsríkt að koma saman og miðla af dýrmætri reynslu sem fengist hefur á þessum áratug sem liðinn er. Því eru skólastjórnendur hvattir til að vekja athygli á þinginu og veita starfsmönnum færi á að sækja það. Starfsmenn skóla , foreldrar, fulltrúar úr grenndarsamfélaginu og aðrir sem hafa beint eða óbeint tekið þátt í starfi undir merkjum Olweusaráætlunar – við viljum sjá hitta ykkur og samgleðjast. Vinsamlegast, skólastjórar, komið þessum skilaboðum til samstarfsaðila í skólasamfélaginu og annarra sem þið teljið að eigi við.

Tillögur að atriðum á dagskrá 22.11.

Fyrir hádegi:
„Olweusaráætlunin á Íslandi 2012-2012.“ Í umsjá Þorláks H. Helgason, framkvæmdastjóra Olweusaráætlunarinnar á Íslandi og Reidars Thyholdt , framkvæmdastjóra Olweus International.
Fyrirlestrar um einstaka þætti í Olweusaráætluninni. Reynsla af áætluninni í skólum. Stelpnaeinelti (-samskipti). Neteinelti. Vinnubrögð. Samstarf skóla og grenndarsamfélags. Sáttmáli í samfélagi.

Pallborð
Efni í málstofum eftir hádegi:
Vinnsla eineltismála, stelpnaeinelti (-samskipti), vinna með gerendur, „óundirbúin málstofa,“ vinna
með foreldrum, rafrænt einelti, bekkjarfundur, samstarf um Olweusaráætlunina í sveitarfélaginu, meginþættir Olweusaráætlunarinnar.

Allt er þetta í vinnslu og veit ég að fjölmargir verkefnastjórar og aðrir oddvitar í Olweusaráætluninni hafa fleira fram að færa en hér er nefnt. Kalla ég eftir tillögum úr skólunum um efni sem óskað er eftir að verði tekið upp – sérstaklega fyrir hádegi eða í málstofu eftir hádegi.
Gert er ráð fyrir þinggjaldi og er kaffi, hressing og hádegismatur innifalið í því.
Kallað verður eftir skráningu – en það myndi auðvelda ef þið skólastjórnendur gætuð á þessu stigi gefið upp líklega tölu úr ykkar skólaframhalds.

Kærar þakkir fyrir samstarf á liðnum árum og vona að við efnum saman til frekari sigra.
Hlakka til að heyra frá ykkur.

Kærar kveðjur,
Þorlákur