Fréttir

Eineltisáætlun okkar, sem um 70 grunnskólar með helming allra grunnskólanemenda eru þátttakendur í, hvílir á nokkrum grunnatriðum: Í skólanum og á heimilum ríki a) Hlýja, einlægur áhugi á velferð barnanna og alúð hinna fullorðnu, b) Ákveðnir rammar séu gegn óviðunandi hegðun, c) Neikvæð viðurlög liggja við brotum á reglum – en þau eru hvorki niðurlægjandi né líkamleg, d) Hinir fullorðnu í skóla og á heimili koma fram af myndugleik sem yfirboðarar. Þessar meginreglur eru yfirfærðar á ýmsar aðgerðir í skólanum, sem allir starfsmenn læra. Handbókin Olweusaráætlunin gegn einelti og andfélagslegu atferli er aðallesefni starfsmanna.

Þessar meginreglur liggja til grundvallar vinnunni sem fram fer í skólanum – inni í bekk og þegar unnið er í einstaklingsmálum.

Í umræðuhópunum sem allir starfsmenn taka þátt í er brýnt fyrir öllum að skilyrðislaus ábyrgð hinna fullorðnu á velferð nemenda skipti sköpum. Börnin leysa ekki mál sem eru orðin að einelti.

Góð bekkjarstjórnun og meginreglur eineltisáætlunar okkar fara að mestu saman. Þar vega þungt jákvæð samskipti við nemendur, mynduglegur stjórnunarstíll, beiting bekkjarreglna og stefnufesta. Við leggjum mikið upp úr því að endurskipuleggja “umhverfið” (félagskerfið) til að komið sé í veg fyrir að einelti þrífist og tril að vinna gegn andfélagslegri hegðun. Þannig þjóni skólabragurinn nemendum sem fullorðnum í skólanum.