Fréttir

Fræðsluyfirvöld hafa samþykkt að allir grunnskólar Reykjavíkurborgar taki þátt í Olweusaráætluninni um varnir gegn einelti. Er þetta hluti markmiða til þriggja ára (2004-2007) um forvarnaráætlanir og til að styrkja nemendur félagslega. Forvarnirnar eiga að ná til “viðbragða við og forvarnir gegn einelti og vímuefnaneyslu og til viðbragða við áföllum.” Þá segir í samþykkt fræðsluyfirvalda m.a.: “Að þremur árum liðnum hafi allir skólar í borginni tekið þátt í Olweusaráætluninni … og á grunni hennar bætt vinnuumhverfi, líðan nemenda og samskipti innan skólans. Verkefninu verði fylgt eftir með fræðslufundum, ráðgjöf og upplýsingasöfnun,” segir í markmiðssetningunni.
Í Reykjavík eru 43 grunnskólar, þar af nokkrir í einkarekstri. Reykjavík er annað skólaumdæmið sem með formlegum hætti er ákveðið að allir grunnskólar innan lögsögu fræðsluyfirvalda skuli taka þátt í Olweusarverkfninu. Allir grunnskólar sem eru í skólasamstarfi ÚTEYJAR takaa nú þátt í Olweusaráætluninni. Flestir frá upphafi árið 2002 en tveir skólar; á Dalvík og í Hrísey hófu þátttöku haustið 2003.