Samskipti stúlkna í skóla geta verið flókin. Hvernig má hjálpa þeim að bæta samskipti sín í milli? Hvernig fara skilaboðin fram í stelpnahópi – árið 2015? Getum við komið í veg fyrir að samskiptin þróist í einelti?

Ingibjörg Auðunsdóttir sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar við HA, ingibj@unak.is og
Helga Halldórsdóttir deildarstjóri Glerárskóla á Akureyri, helgahalldors@akureyri.is  halda starfstengt námskeið þar sem glímt er við lausnir á erfiðum samskiptum stúlkna. Ingibjörg og Helga voru með okkur í fyrsta hópi verkefnastjóra í Olweusaráætluninni og hafa verið virkar í eineltisáætluninni.

 • Hér fylgir námskeiðslýsingin:
   

  Um verkefnið

  Námskeiðið byggir á hugmyndum bandarísku sérfræðinganna Julaine Field, Jered Kolbert, Laura Crothers og Tammy Hughes (2009). Þau hafa sett saman áætlun fyrir skóla um hvernig vinna má með stúlkum sem eiga í samskiptavanda. Áætlunin byggir á ákveðnu skipulagi innan skólans og tíu umræðufundum þar sem unnið er með stúlkunum. Reynslan hefur sýnt að vinnan skilar bestum árangri þegar unnið er með stúlkum á aldrinum 11 – 15 ára (6. – 9. bekkur) sex til tíu stúlkur í hóp. Þetta ferlið hefur verið unnið með og rannsakað með nokkrum stúlknahópum hérlendis og skilað góðum árangri að mati þeirra sem hafa komið að vinnunni þ.e. skólastjórnendum, umsjónarkennurum, foreldrum og stúlkunum. Litlir hópar henta vel stúlkum til að ræða saman um samskipti þeirra og vandamál.
  Stúlkur beita gjarnan dulinni áreitni þar sem þær ráðskast með tilfinningar og vináttu annarra og beita stýrandi hegðun m.a. með útilokun frá hópi eða slæmu umtali. Mikilvægt er að stúlkurnar sem og starfsmenn skóla átti sig á afleiðingum, einkennum og vísbendingum um dulda áreitni og nauðsyn þess að vinna með slík samskipti komi þau upp innan stúlknahóps.

  Eftir þetta vinnuferli er verkefnið eign skólans og getur nýst skólanum á fyrirbyggjandi hátt. Ný þekking hefur orðið til sem starfsmenn geta notað sem forvörn gegn erfiðum samskiptum stúlkna.

   

  Markmið verkefnisins er 

  • Að hjálpa stúlkum að bæta samskiptin sín á milli.
  • Að vinna með óæskilega hegðun og samskipti stúlkna.
  • Að efla félagslega færni stúlknanna í samskiptum innbyrðis með því að vinna með æskilega og óæskilega hegðun.
  • Að gefa stúlkum tækifæri til að ræða saman um þau félaglegu skilaboð sem ætluð eru ungum stúlkum í dag, mikilvægi félagstengsla, sjálfvirðingar og félagslegrar samkenndar.
  • Að stúlkurnar fái þjálfun í að hugsa á gagnrýninn hátt um samskipti sín, hvernig þær tengjast hver annarri og þeim er gefið tækifæri til að tala um reynslu sína um leið og þær læra að takast á við árekstra og samkeppni við jafningjana.
  • Að starfsmenn skólans fái fræðslu um samskipti og hegðun stúlkna og hvað felist í samskiptavanda þeirra.
  • Að upplýsa foreldra og fá þá til samstarfs um bættan skólabrag.

  Leiðir að markmiðum

  • Unnið er með stúlkum í hóp við lausn samskiptavanda.
  • Með umræðufundum (10 skipti) er stúlkum hjálpað að sjá hvaða afleiðingar slæm hegðun og erfið samskipti geta haft. Farið er í verkefni og leiki/aðferðir þar sem stúlkum er kennt að skoða samskiptin og líta í eigin barm.
  • Myndaður er aðgerðarhópur (t.d. umsjónarkennari, stjórnandi, námsráðgjafi, …) í skólanum sem heldur utanum vinnuna og sér um skipulag hennar.
  • Unnið er í samstarfi við starfsmenn og foreldra til að ná settum markmiðum.

  Verkefnið byggir auk þess á

  • Greiningu á stöðunni með viðtölum við stúlkur sem hlut eiga að máli í upphafi vinnunnar og við lok umræðufundanna og skil á niðurstöðum.
  • Kynningar- og fræðslufundum með starfsmönnum, auk annarra funda.
  • Fundum með foreldrum í upphafi vinnunnar og í lok hennar.
  • Ýmiskonar verkefnum og listum sem nýtast í vinnunni.
  • Skýrslugerð eftir þörfum og óskum hvers skóla.

   

  Heimild: Field, J. E., Kolbert, J. B., Crothers, L. M. og Hughes, T. L. (2009). Understanding girl bullying and what to do about it: strategies to help heal the divide. USA: Corwin.

   

   

   

  Erfið samskipti stúlkna – leið til lausna

  Nánari útfærsla á vinnulagi

   

   

  I           Vinnulag

  Vinnuferlið hefst á undirbúningsfundi aðila í skólanum þar sem upplýsingar um stöðuna eru ræddar. Tekin eru einstaklingsviðtöl við stúlkurnar sem um ræðir. Gerð er grein fyrir niðurstöðum viðtala við stúlkurnar í upphafi vinnunnar og í lok hennar og er það samkomulag aðila hvernig skilin fara fram. Skýrslugerð getur verið formleg eða óformleg. Halda þarf kynningar- fræðslufund með starfsmönnum og fundað með foreldrum þar sem samskipti stúlknanna eru til umfjöllunar og fyrirhugaðar aðgerðir og samstarf allra. Í lok vinnunnar er aftur fundað með foreldrum og farið yfir stöðuna. Mynda þarf aðgerðarhóp innan skólans, t.d. ( umsjónarkennari, stjórnendur, námsráðgjafi, …) sem skipuleggur og heldur utanum málið.

   

  II          Efni til afhendingar                                        Skipulag 10 umræðufunda, auk verkefna sem þeim fylgja.

   

  Kynningarefni fyrir foreldra og annað efni tengt verkefninu (spurningalisti, greiningarverkefni, o.fl.).

   

  III         Meðan umræðufundirnir eru haldnir

  Er ráðgjöf í boði (sími og tölva) þær 10 til 12 vikur sem tekur að vinna með umræðufundina.

  IV           Lok verkefnisins                                                                                                                 Vinnuferlinu líkur með einstaklingsviðtölum við stúlkurnar og skilum sem geta farið fram eins og í fyrra viðtalinu. Starfsmenn funda og fara yfir gang mála. Ræða hvað og hvernig málin hafa þróast. Hvað stúlkurnar segja um vinnuna í viðtölunum og hvernig samstarfið við foreldra hefur gengið. Sömuleiðis er fundað með foreldrum og farið yfir gang málsins og línur lagðar um áframhaldandi vinnu.

  V         Eftirfylgd                                                                                                                              Aðgerðarhópur ber ábyrgð á að fylgst sé með málum stúlknanna næstu mánuðina eftir lok umræðufundanna en reynslan sýnir að það skilar bestum árangri. Ef aðilar komast að þeirri niðurstöðu að áfram þurfi að vinna með stúlkurnar þá er það á ábyrgð aðgerðarhópsins að sú vinna komist til framkvæmda.