Dan Olweus

Hemil-miðstöðinni, Háskólanum í Bergen

(Þessi grein birtist fyrst þann 18.10.2001 í hinu rafræna tímariti Skolen i Norden – http://www.skolen.odin.dk )

Einelti verður stöðugt meira á dagskrá hjá skólayfirvöldum og ýmislegt hefur verið lagt til að gert sé eða verið framkvæmt til að vinna gegn vandanum og koma í veg fyrir hann (alþjóðlegt yfirlit, sjá Smith et al, 1999).

Sumar af þessum tillögum virðast vera fremur óheppilegar eins og til dæmis það að leggja aðaláherslu á að styrkja fórnarlömb eineltis í að bregðast við líkamsárásum. Aðrar aðgerðir virðast vera skynsamlegar og jafnvel gagnlegar. Vandamálið er þó að annað hvort hefur ekki sýnt verið fram á neinar jákvæðar afleiðingar þessara aðgerða eða þá að þær hafa ekki verið metnar á kerfisbundinn hátt.

Þess vegna er mjög nauðsynlegt að afla sér vitneskju um hvort og ef svo er að hve miklu leyti þær aðgerðir, sam stungið hefur verið upp á, virka eins og til er ætlast. Draga þær úr raun úr eða koma í veg fyrir einelti á meðal nemenda? Það er þó morgunljóst að þannig árangur skiptir máli en ekki hvort til dæmis þeir fullorðnu hafa áhuga á að grípa til viðkomandi aðgerða („ánægja neytenda“).

Þörf er á vísindalega metnum aðgerðaáætlunum

Þessi vandi var nýlega tekinn til umræðu í Bandaríkjunum en opinber nefnd sérfræðinga þar fékk það verkefni að meta á gagnrýninn hátt rúmlega 400 aðgerðaáætlanir sem ætlað var að kæmu í veg fyrir ofbeldi og sem beitt er með reglubundnum hætti í bandarískum skólum og víðar. Einungis tíu af þessum áætlunum (fjórar þeirra byggðust á ákveðnum skóla) uppfylltu þær kröfur sem lagðar voru fram sem lágmarksviðmið, að jákvæður árangur væri staðfestur í vísindalega staðfestum könnunum, að minnsta kosti tveir mismunandi hópar vísindamanna hefðu getað sýnt fram á þannig árangur og að árangurinn kæmi fram í að minnsta kosti eitt ár. Nú er verið að taka þessar svokölluðu fyrirmyndaráætlanir í notkun víða í Bandaríkjunum með fjárhagslegum stuðningi bandaríska dómsmálaráðuneytisins (Olweus & Limber, 1999).

Áþekkt mat á 57 aðgerðaáætlunum gegn atferlisvanda í skólum var nýlega unnið af sérfræðinefnd í Noregi (skrifleg gögn voru það ófullnægjandi að einungis var hægt að meta 25 þessara áætlana). Einungis var hægt að mæla með einni af þessum áætlunum til notkunar í skólum án fyrirvara (Skýrsla 2000).

(Aths. ÞHH: Sjá vefslóðina (skjal á pdf-formi): http://odin.dep.no/archive/kufvedlegg/01/01/probl029.pdf
Sjá t.d. niðurstöður um Olweusarkefið s. 75-77)

Þar sem Kjarnaáætlun Olweusar gegn einelti og andfélagslegri hegðun er ein af þessum tíu fyrirmyndaráætlunum og sú eina sem mælt var með af norsku sérfræðinefndinni, mun ég hér að neðan takmarka mig við að kynna árangur og reynslu af þessari áætlun. Í eftirfarandi töflu er að finna kjarnaþætti aðgerðaáætlunarinnar:

YFIRLIT YFIR KJARNAÁÆTLUN OLWEUSAR GEGN EINELTI OG ANDFÉLAGSLEGRI HEGÐUN

ALMENNAR FORSENDUR
VITUND OG ÁHUGI

AÐGERÐIR Í HVERJUM SKÓLA
KÖNNUN MEÐ SPURNINGALISTA
NÁMSDAGUR UM EINELTI
BÆTT EFTIRLITSKERFI
UPPELDISFRÆÐILEGIR UMRÆÐUHÓPAR
STOFNUN STÝRIHÓPS

AÐGERÐIR Í HVERJUM BEKK
BEKKJARREGLUR GEGN EINELTI
BEKKJARRÁÐ HITTIST REGLULEGA
FUNDUR FORELDRA Í BEKKNUM

AÐGERÐIR VEGNA EINSTAKLINGA
ALVARLEGAR SAMRÆÐUR VIÐ GERENDUR OG FÓRNARLÖMB EINELTIS
SAMRÆÐUR VIÐ FORELDRA NEMENDA SEM MÁLIÐ VARÐAR
BEITING HUGMYNDAFLUGS (KENNARAR OG FORELDRAR)

Vísindalegt mat á Olweusaráætluninni

Fyrsta matið á áhrifum áætlunarinnar var gert í tengslum við átak á landsvísu gegn einelti sem norska kirkju- og menntamálaráðuneytið stóð fyrir. Fylgst var með um 2.500 nemendum í 5. til 8. bekk í 42 skólum í Bergen í hálft þriðja ár. Þessar urðu nokkrar helstu niðurstöðurnar:

• Eineltistilfellum í skólum fækkaði umtalsvert, um helming eða meira, næstu tvö ár eftir að aðgerðaáætluninni var hrundið í framkvæmd. Almennt séð má segja að þessi árangur hafi náðst bæði í hópi stúlkna og drengja og hvað varðar beint einelti („einelti með fremur beinum árásum á fórnarlambið“), óbeint einelti („að vera haldið fyrir utan félagahópinn“, félagsleg einangrun) og það að leggja aðra nemendur í einelti.
• Mikið dró einnig úr andfélagslegu atferli eins og t.d. þjófnuðum, skemmdarverkum, drykkjuskap og skrópi.
• Það var einnig staðfest að nemendum leið betur í skólanum en áður og að mikil breyting hafði orðið til batnaðar í félagslegu andrúmslofti skólans.

Sambærilegar niðurstöður, þar sem eineltisvandinn minnkaði um 40-50%, hafa fengist í tveimur víðtækum íhlutunarrannsóknum undanfarin ár, í rannsókn sem tók til um 4.000 nemenda í 14 aðgerðaskólum og 16 samanburðarskólum í Bergen á árunum 1997-1998, og í rannsókn á um 2.300 nemendum í tíu skólum á Óslóarsvæðinu á árunum 1999-2000 (Olweus, 1999a, 2001). Jákvæðar en þó ekki jafn eindregnar niðurstöður fengust úr endurtekningarrannsókn (að hluta til) í Englandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi (Olweus & Limber, 1999).

Helstu niðurstöður ransókna þessara eru þær að það í raun kleift að draga svo um munar úr einelti í skólum og tengdum vandamálum með vönduðum aðgerðaáætlunum á vísindalegum grundvelli.

Meginreglur

Olweusaráætlunin byggist á fremur fáum lykilmeginreglum sem fengist hafa staðfestar í vísindalegum rannsóknum á þróun og breytingum þessa atferlisvanda, einkum árásarhneigðu atferli. Það er því mikilvægt að reyna að koma á „endurskipulagningu þess félagslega umhverfis sem er“ og að skapa skólaumhverfi (og helst líka umhverfi heima fyrir) sem einkennist af:

• hlýlegum og jákvæðum áhuga og alúð hinna fullorðnu
• ákveðnum römmum vegna óviðunandi atferlis
• stefnufastri beitingu neikvæðra afleiðinga (refsinga) sem hvorki eru líkamlegar né óvinveittar, brjóti nemandi gegn þeim reglum sem ákveðnar hafa verið
• fullorðnum í skóla (og á heimili) sem virka sem yfirboðarar við vissar aðstæður.

Þessar meginreglur hafa svo verið „þýddar“ yfir í ýmsar aðgerðir í skólum, á heimilum og hvað hvern og einn varðar (sjá 1. töflu). Helstu markmið aðgerðaáætlunarinnar eru þau að breyta „skipulagi tækifæra og umbunar“ fyrir einelti þannig að mjög dragi úr möguleikum á eineltisatferli og umbun fyrir það.

Vinsamlegast hafið samband ef óskað er frekari upplýsinga.

Kærar kveðjur, Þorlákur, thorlakur@khi.is
s. 894 2098