Olweusarverkefnið gegn einelti er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla. Verkefnið byggir á kenningum prófessors Dan Olweus, sem rannsakað hefur einelti s.l. 30 ár og er einna fremstur fræðimanna í heiminum á því sviði. Hér á landi nær verkefnið til 43 grunnskóla og skólaskrifstofa og u.þ.b. 13.000 grunnskólanemenda, sem er um þriðjungur allra grunnskólanemenda í landinu. Starfsmenn sem taka beinan þátt eru um 2000.
Breiðagerðisskóli er einn þeirra grunnskóla sem tekur þátt í verkefninu. Stofnaður hefur verið stýrihópur innan skólans með fulltrúum starfsfólks, foreldra og nemenda. Verkefnisstjóri er Sigrún Ágústsdóttir námsráðgjafi og Guðrún Ingimundardóttir stýrir verkefninu innan skólans í samstarfi við Sigrúnu.
Olweusaráætlunin byggist á fremur fáum meginreglum sem miða að því að endurbæta félagslegt umhverfi í skólanum og að skapa skólaumhverfi (og helst líka umhverfi heima fyrir) sem einkennist af:
” hlýlegum og jákvæðum áhuga og alúð hinna fullorðnu
” ákveðnum römmum vegna óviðunandi atferlis
” stefnufastri beitingu neikvæðra afleiðinga (viðurlaga) sem hvorki eru líkamlegar né óvinveittar, brjóti nemandi gegn þeim reglum sem ákveðnar hafa verið
” fullorðnum í skóla (og á heimili) sem virka sem yfirboðarar við vissar aðstæður.
Til að vinna að því að þessar meginreglur verði teknar í notkun innan skólans fara af stað ýmsar aðgerðir í skólanum, á heimilum og gagnvart einstaklingum. Helstu markmið aðgerðaáætlunarinnar eru að draga úr tækifærum til eineltis og skapa þannig andrúmsloft að einelti borgi sig ekki.
Helstu þættir sem unnið verður að með skipulögðum hætti eru eftirfarandi:
” Lögð var fyrir könnun meðal nemenda í nóvember 2002. Niðurstöður hennar verða kynntar fyrir starfsfólki, foreldrum og nemendum á vorönn.
” Allir starfsmenn skólans taka þátt í umræðuhópum sem hafa það að markmiði að fræða starfsfólk um einelti og undirbúa það undir að vinna markvisst gegn því. Í þessu sambandi fer fram mikill lestur og umræður.
” Nemendur fá fræðslu um einelti, eðli eineltis, birtingarform þess og afleiðingar fyrir gerendur og þolendur. Í þessu sambandi verður nemendum m.a. sýnt myndband.
” Tekið verður í notkun bætt eftirlit innan skólans og lögð áhersla á vitundarvakningu meðal starfsfólks, nemenda og foreldra.
” Teknar verða upp bekkjarreglur gegn einelti.
” Haldnir verða bekkjarfundir um samskipti og skólabrag.
” Haldnir verða kynningar- og umræðufundir fyrir foreldra.
” Takið verður á þeim eineltismálum sem upp koma með skipulögðum hætti með samtölum við gerendur, þolendur og foreldra.
” Könnun verður endurtekin í nóvember 2003.
Þessir helstu þættir verkefnisins verða teknir inn smátt og smátt eftir skipulagi sem unnið er eftir. Þannig mun vorönnin að mestu leyti fara í undirbúning meðal starfsfólks, og almenna vitundarvakningu meðal starfsfólks og nemenda, ásamt því að taka upp bætt eftirlit og gera alla betur í stakk búna til að taka á einelti sem upp kann að koma. Á haustönn taka bekkjarreglur gildi og bekkjarfundir og fleira starf innan umsjónarbekkja fer af stað. Einnig verða kynningarfundir fyrir foreldra að hausti notaðir að hluta til að ræða verkefnið og framvindu þess.
Sjá frekar á síðum skólans: http://breidagerdi.ismennt.is