Í gærkvöldi var eftirtektarvert viðtal í Ríkissjónvarpinu við Sigrúnu Harðardóttur, lektor við HÍ um aðstöðu þeirra nemenda sem eru á almennum brautum í framhaldsskólanum. Í doktorsrannsókn sinni komst hún að því að einungis sjötti hver nemandi sem glímdi við námsvanda hafði lokið námi að fjóru og hálfu ári liðnu. Sigrún kallar eftir því að framhaldsskólinn sinni þessum nemendum betur og bjóði m.a. upp á styttri námsbrautir sem veiti réttindi. Brotthvarf af almennu brautunum er mikið.
Í nýlegri rannsókn á gengi nemenda í framhaldsskólum í Svíþjóð voru nemendur sem töldust til brotthvarfsnema spurðir um ástæður brotthvarfsins. Flestir – eða um helmingur nemenda – sagði ástæðuna vera einelti einkum sem félagslegri útskúfun. Framkoma kennara og annarra starfsmanna skólanna réði líka miklu. Skortur væri á umhyggju og að fullorðnir skiptu sér meira af. Þá voru erfiðar heimilisaðstæður nefndar og sálfélagsleg líðan. Niðurstöður rannsóknar Sigrúnar sýnir einnig að nemendur sem glíma við námsvanda búa við lakari félagslega líðan í upphafi náms en aðrir nemendur og hverfa frekar frá námi. Framhaldsskólinn er í dag helst miðaður við þá nemendur sem eiga auðvelt með nám, segir Sigrún.
Fimmti hver nemandi í framhaldsskólum á Íslandi er á almennri braut (eða framhaldsskólabraut). Í sumum framhaldsskólanna er allt að helmingur nemenda skráður á almenna braut.