ForeldrarForvörnFréttirSkólastarfStarfsfólkÁrangurinn er líka frábær

Það eru miklir óvissutímar framundan. Hætt er við að mörg börn séu ein og útundan.

Nú sem fyrrum er skólinn í brennidepli. Kórónafjölskyldunni fylgir ótti og hætta á einangrun. Ábyrgð hvílir á fullorðna fólkinu, kennurum og öðru starfsfólki og forráðamönnum nemenda. Nemendur þurfa að geta leitað til hvaða starfsmanns sem er – um stuðning. Vinátta og væntumþykja styrkir. Hópur nemenda á öllum skólastigum býr við óöryggi heima fyrir. Það er mikils virði að kærleikar takist með ungum sem fullorðnum. Sum eiga sér fyrst og síðast athvarf í skólanum. Nú er öllu snúið á hvolf – allavega í augum margra. Skólastarfið færist yfir á heimilin í ríkari mæli en áður. Heimavinna er ekki öllum foreldrum gefið að geta leyst bærilega.

Einmanaleiki kveður sér hljóðs. Margir nemendur eiga sína bestu vini í skólanum. Þau tengsl kunna að rofna í þessari orrahríð sem nú gengur yfir.

Framundan er páskafrí í skólunum. „Frí“ með undarlegum (fordæmalausum) einkennum. Fríið reynir á í fjölskyldum – á sálarheill og samheldni. Kvíði brýst fram og lausn er ekki í sjónmáli. Samskipti út  á við eru takmörkuð. Heimili kunna að einangrast. Páskafríið með allt öðrum formerkjum en reiknað hafði verið með. Við þessar aðstæður er mikilvægt að skólinn og heimilin taki höndum saman.

Rétt um það leiti sem veiran fór á kreik og kórónaði allt og alla lauk  árlegri rannsókn  um einelti og stöðu nemenda í grunnskólum okkar í Olweusaráætluninni. Við getum lesið okkur í gegnum hvern skóla fyrir sig og metið aðstæður nemenda. Fylgjumst sérstaklega með þeim sem kunna að vera einmana. 5% nemenda segjast eiga enga(n) eða bara eina/einn vinkonu/vin í skólanum! Þegar nýr nemandi bætist við í bekknum er mikils virði að eignast sem allrafyrst góðan vin.
Einelti er sársaukafullt og getur lagt börn að velli. Einelti í 5.-10. bekk mælist nú 6,3%. Álíka mikið hjá stelpum og strákum.
6,1% stelpna og 2,8% stráka segja að það hafi verið vont, særandi eða hræðilegt sem þau hafi lent í.

Skólarnir vinna markvisst að því að leysa börn úr einelti. Þó eineltið hafi hætt er alls ekki þar með sagt að særindin hafi horfið. Margir losna ekki undan og eru aftur og aftur minntir á stöðuna. 18,4% stelpna og 11,1% stráka í 5.-10. bekk óttast að verða fyrir einelti. Eineltið bankar upp á. Hjá sumum um ókomna framtíð!

Það eru miklir óvissutímar framundan. Hætt er við að mörg börn séu ein og útundan. Hvernig getum við komist að því hversu mjög eineltið hefur herjað á einstaka nemendur? Hvernig getum við verndað börnin? Þau verða að búa við öryggi og traust. Þessum óvissutímum fylgja ógnanir. Börnin þurfa óskiptan stuðning, heimilin þurfa leiðsögn. Samfélagið þarf að gera sér grein fyrir hvert er líklegt að stefnt sé. Sameiginlega þurfum við að bera ábyrgð. Barn sem lendir í einelti er í mjög viðkvæmri stöðu. Og enn verri ef það hefur  ekki þann félagslega stuðning sem heimili og skóli geta veitt því.

Kæra samstarfsfólk. Innilegar kveðjur.

Þorlákur