Fréttir
Irdwan Abdul Gabbers

Mál Irdwans Abduls Gabbers hefur valdið miklu fjaðrafoki í Noregi.

Það endaði með handleggsbroti, en þá hafði Irdwan litli mátt þola argasta einelti í eitt ár í skólanum sínum í Björgvin í Noregi. Hann kom með foreldrum sínum og systur til Noregs frá Írak. Sl. þriðjudag króuðu strákar hann af í frímínútunum og núna er skólinn gagnrýndur fyrir ónóga gæslu og að fylgja ekki kerfisbundinni eineltisáætlun. Mál Irdwans vekur okkur til umhugsunar um aðkomu innflytjenda á Íslandi. 4,7% af nemendum í 4. – 7. bekk segjast verða fyrir aðkasti 2-3 í mánuði eða oftar vegna húðlitar eða erlends uppruna. Á unglingastigi er sambærileg tala 2,7%. Börnin finna það ekki hjá sjálfu sér að uppnefna einhvern og lítillækka á annan hátt. Foreldrar bera ábyrgð á því að senda börnin í skólann með “eðlilegar” skoðanir á öðru fólki, segir Reidar Thyholdt sálfræðingur.

Reidar sem er einn stjórnenda við Olweusarstofnunina í Björgvin – og kennir einnig í Olweusarverkefninu á Íslandi – segir ekki nóg að skólar segist vinna gegn einelti. Mál Irdwans frá Írak sýni að skólinn hafi ekki fullnægjandi eftirlitskerfi.

Irdwan neitar að fara í skólann eftir atburðina sem á undan eru gengnir, en skólastjórinn segir að unnið sé í því að fá hann í skólann. “Þetta kemur ekki fyrir aftur,” segir Nora Stegane skólastjóri, í viðtali við Bergens Tidende í dag. Eftir atvikið hafi strax verið rætt vð foreldra þeirra sem börðu Irdwan og að faðir hans hafi verið kallaður til viðtals í skólanum.

Mál Irdwans Abduls Gabbers hefur valdið miklu fjaðrafoki í Noregi. Kringlubotnarskóli í Björgvin, þar sem eineltið á sér stað, segist vinna í eineltismálunum en Reidar sálfræðingur telur það ekki nægjanlegt. “Það segir sig sjálft að skólinn hefur ekki staðið sig nógu vel. Svona lagað á alls ekki að gerast. Það verður að vinna kerfisbundið gegn eineltinu og starfsfólk þarf að vera samstíga ” segir Reidar.

Örugg börn í góðu námsumhverfi er slagorð skólans í Kringlubotni. Nora skólastjóri segir að skólinn hafi í samvinnu við foreldra og  nemendur búið til eigin áætlun í stað þess að vera með í Olweusaráætlun gegn einelti.

Um 400 skólar í Noregi eru í Olweusaráætluninni gegn einelti – en um 30% allra nemenda á Íslandi eru í sama verkefni.

Sjá nánari fréttir á netsíðum BT í Noregi, en á myndinni er Irdwan með mömmu sinni og yngri systur:
http://www.bt.no/lokalt/bergen/article230967
http://www.bt.no/lokalt/bergen/article231222

Mál Irdwans verður tekið fyrir í bæjarstjórninni í Björgvin á fimmtudag.