Fréttir

Þorgerður Katrín sagði,að hún tryði því að Olweusarverkefnið væri árangursrík leið til að vinna gegn ofbeldi og til að bæta aðstæður í skólum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra sagði á ráðstefnu um menntun fagfólks í kynferðisbrotamálum, að hún tryði því að Olweusarverkefnið væri árangursrík leið til að vinna gegn ofbeldi og til að bæta aðstæður í skólum. Lýsti hún vinnunni í eineltisáætluninni og gat þess hvaða árangur hefði nást í viðamiklum könnunum á líðan barna. Ráðstefnan stendur yfir í dag í Kennaraháskóla Íslands, en yfirskrift hennar er Bætt menntun BETRI VIÐBRÖGÐ, menntun fagfólks og meðferð kynferðisafbrotamála. Ræða menntamálaráðherra á ráðstefnunni:

Ráðstefna um menntun fagfólks um kynferðisofbeldi
17. september 2004
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra.

Kæru ráðstefnugestir,

Þessi námsstefna er mikilvægt og lofsvert framtak. Þeir fjölmörgu einstaklingar sem starfa hjá samtökum af hugsjón einni við að hjálpa fórnarlömbum kynferðisbrota hafa tekið höndum saman og tekist hér í dag að koma saman aðilum margra fagstétta. Markmiðið er til að ræða um meðferð kynferðisbrotamála og menntun þeirra sem hlynna að fórnarlömbunum. Starfsmenn þessara samtaka sem taka að sér að hjálpa og hlynna að þolendum kynferðisbrota eru einmitt þeir einstaklingar sem vita hvað mest um feril þessara mála og hvar skóinn kreppir. Hér í dag eru því samankomnar fagstéttir sem koma beint og óbeint að málum sem þessum, til að kynnast, læra af reynslu annara og vinna í að bæta faglega menntun fagstétta um meðferð kynferðisafbrotamála.

Því miður er kynferðislegt ofbeldi staðreynd í samfélagi okkar, þótt það fari ekki hátt í umræðunni. Því verður þó ekki neitað að í fjölmiðlum berast landsmönnum einstaka sinnum fréttir af kynferðisafbrotum. Fréttir af þessum toga vekja bæði óhug og undrun. Það er því hollt áður en við hefjum umræðuna í dag að staldra við og hugsa um fórnarlambið í þessu samhengi, einstaklinginn sjálfan sem verður fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þessi einstaklingur hefur ekki einungis upplifað gróft mannréttindarbrot sem aldrei er hægt að bæta að fullu heldur þarf sá hinn sami að endurtaka sögu sína margoft – í mismunandi umhverfi og – við mismunandi einstaklinga. Fórnarlamb kynferðisofbeldis hittir auk aðstaðdenda að öllum líkindum lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, félagsfræðinga, presta, lögreglumenn, kennara, lögfræðingar og fleiri fagstéttir.

Það er óumdeilt að allir þeir fagaðilar sem nefndir voru hafi mikla þekkingu á sínum málaflokki, og væntanlega nægilega mikla þekkingu til að sinna þolandanum rétt og vel. Það sem er hins vegar umdeildara er hvort allir þessir fagaðilar hafi skilning á því hversu alvarleg, viðkvæm og viðvarandi þessi brot eru. Og auðvitað vakna samstundis fjölmargar spurningar um hina almennu umræðu í þjóðfélaginu og um menntun allra þeirra fjölmörgu aðila sem fara með þessi mál.

Upp vakna margar spurningar. Hversu mikið í námi fagstétta er rætt um brot sem þessi? Sem dæmi fer lögfræðingur með refsirétt sem aðalvalgrein ekki mjög djúpt í mál sem þessi og lítið er hugað af rótum vandans, hvað þá að líðan fórnarlambsins sjálfs. Er námið góður undirbúningur til að takast á við raunverulegt kynferðisbrotamál? Er lögð áhersla á fræðslu um þessi mál í endurmenntun fagmanna? Þurfa fjölmiðlamenn kannsk að fá sérstaka innsýn inn í mál af þessu tagi og dýpri skilning? Vita fagaðilar um alla þá sjálfboðaliða sem veita fórnarlömbum stuðning? Erum við að hlusta nægilega vel á fórnarlömbin? Kunnum við yfir höfuð að hlusta? Ég vænti þess að svipaðar spurningar komi upp á þessu námsþingi og óskandi er að svörin verði brúkleg í baráttunni gegn þessum svívirðilega glæp.

Þótt meginhlutverk grunn- og framhaldsskóla felist í að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegu uppeldi þeirra gegnir skólinn einnig veigamiklu uppeldishlutverki. Skólinn er vinnustaður nemenda og þar verja þau að öllu jöfnu jafna mestum hluta dagsins yfir veturinn. Líta má á þennan vinnustað sem nokkurs konar spegilmynd samfélagsins þar sem menn þurfa að læra að starfa saman í sátt og samlyndi. Hin siðferðilegu gildi samfélagsins þurfa að endurspeglast í öllu skólastarfi.

Í námskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla er ekki fjallað sérstaklega um kynferðisafbrot enda um viðkvæm mál að ræða og vandmeðfarin í umfjöllun með börnum og ungmennum. Í staðinn er talað um breytt viðmið í skólastarfi. Breytt viðmið í skólastarfi vísar fyrst og fremst til breytinga á verkaskiptingu á milli heimilis og skóla. Orsakir þessa eru ýmsar, s.s. hátt hlutfall foreldra sem báðir vinni utan heimilis og fleiri sundruð heimili svo eitthvað sé nefnt. Án þess að draga úr mikilvægast hlutverki foreldra, uppeldinu, er staðreyndin sú að skólinn, kemur í auknum mæli að uppeldi barna og ungmenna. Menntakerfið þarf því að vera sveigjanlegt til að mæta breyttum aðstæðum og nýjum kröfum. Slíkt er t.d. staðfest í aðalnámskrá fyrir grunnskóla á Íslandi en þar segir m.a: „Breytingar á fjölskyldu- og heimilislífi og í atvinnulífi kunna að gera nýjar og breyttar kröfur til skólanna.“ Þar eru einnig ákvæði sem lúta að kröfum í síbreytilegu umhverfi samtímans og lögð er áhersla á samvinnu heimilis og skóla í að búa nemendur undir líf og starf þó frumábyrgðin hvíli á foreldrum.

Þótt í aðalnámskrám fyrir grunn- og framhaldsskóla sé ekki fjallað sérstaklega um kynferðisofbeldi eru þar markmið sem lúta að því að búa einstaklinginn undir að vera meðvitaður, ábyrgur og sjálfstæðureinstaklingur.
Mikilvægt er því að byggja upp skilning og jákvæð samskipti sem koma í veg fyrir beitingu ofbeldis, en í versta falli hjálpa mönnum að skilja og takast á við áföll. Í aðalnámskrám grunnskóla og framhaldsskóla, sérstaklega í lífsleikni, samfélags­greina og náttúrufræða, er á nokkrum stöðum vikið mikilvægi jákvæðra samskipta, tillitssemi og umburðalyndi í samskiptum; einnig að ábyrgri kynhegðun. Á einum stað í námskrá í uppeldisfræðum í framhaldsskólum (UPP 203 og UPP 302) er beinlínis fjallað um kynferðislegt ofbeldi, afleiðingar þess og mögulega viðbrögð. Þar er þó fyrst og fremst verið að búa nemendur undir störf í félagsmálum og umönnunarstörfum. Er það umhugsunarefni hvort slík grunnfræðsla eigi ekki að vera víðtækar í framhaldsskólum.

Í almennum hluta aðalnámskár grunnskóla er einnig að finna mikilvægan kafla sem fjallar um velferð nemenda. Þar segir m.a. að æskilegt sé að allir grunnskólar komi sér upp forvarnaráætlun sem m.a. felur í sér aðgerðir og reglur til að koma í veg fyrir agabrot og hvernig tekið sé á því ef slíkar reglur eru brotnar. Slíkar aðgerðir geta falið í sér að skólar skilgreini í skólanámskrá hvernig skuli unnið gegn ofbeldi, s.s. einelti. Einelti hefur verið mikið til umræðu að undanförnu og er sú tegund ofbeldis sem virðist hvað mest eiga sér stað meðal barna og ungmenna.

Menntamálaráðuneytið hefur á allra síðustu árum haft forgöngu um og styrkt á öflugan hátt aðgerðir til að koma í veg fyrir einelti og annað ofbeldi í grunnskólum. Hér er um samstarfsverkefni ráðuneytisins, Kennaraháskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla og er kallað Olweusar verkefni gegn einelti. Forsaga málsins var að menntamálaráðuneytið fól Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála (RUM) 1998 að gera rannsókn um umfang og eðli eineltis í íslenskum grunnskólum og úrrræði skóla til lausnar vandamálinu. Niðurstöður leiddu m.a. í ljós visst óöryggi hjá kennurum að takast á við einelti í skólum. Stofnaður var starfshópur sem í áttu sæti fulltrúar fyrrgreindar aðila auk menntamálaráðuneytisins. Til að gera langa sögu stutta varð til í kjölfar þessarar vinnu aðgerðaráætlun sem byggð er á kenningum norska prófessorsins Dans Olweus. Byggir aðgerðaráætlunin fyrst og fremst á því að þjálfa kennara, starfsfólk og nemendur í að takast á heildrænan hátt við vandamálið með það að leiðarljósi að einelti eða ofbeldi verði ekki liðið í skólanum. Nær verkefnið nú þegar um 80 grunnskóla í landinu. Gefa kannanir í þátttökuskólum vísbendingar um að það hafi þegar borið árangur. Þarna er um samstillt átak hagsmunaðaðila skólastarfs að ræða í að fyrirbyggja og uppræta ofbeldi meðal barna og ungmenna. Segja má að hér sé á ferðinni eitt stærsta og öflugasta forvarnar- og endurmenntunarverkefni í skólastarfi sem hefur þann tilgang að styrkja kennara, starfsfólk skóla og nemendur í að takast á við erfið og viðkvæm vandamál. Ef verkefni sem þetta ber tilætlaðan árangur má vona að kennarar og starfsfólk skólanna sé betur í stakk búið til að takast á við vandann og nemendur fái í veganesti betri skilning, þekkingu og færni í að takast á við hvers konar ofbeldi.

Í ljósi þeirra ágætu reynslu sem hlotist hefur af Olweusarverkefninu má velta því fyrir sér hvort slíka þverfaglega samvinnu auk rannsókna sé ekki hægt að heimfæra á viðfangsefni þessarar námsstefnu.

Markmiðið í dag er að hreyfa við mikilvægu máli og leiða umræðuna um bætta menntun og skýrari námskrá fyrir fagaðila þeirra stétta sem koma að þessum málum með jákvæðum hætti. Markmiðið er líka að auka vitund samfélagsins um umfang kynbundins ofbeldis og þá ábyrgð sem á fagfólki hvílir að bregðast rétt við. Takmarkið er skýrt og leiðir okkur áfram og mun leiða okkur að bættri meðferð mála og auknum skilningi. Menntun og þjálfun þeirra fagstétta, sem koma að jafn viðkvæmum málum og kynferðisofbeldi, er vissulega mikilvæg. Því ber að fagna sérstaklega þessu aðstandendar þessarar námsstefnu í dag.
Um leið og ég opna námsstefnuna óska ég ykkur góðs gengis og treysti því þetta framtak leiði til betra og vonandi bjartara umhverfis fórnarlamba kynferðisofbeldis.