Af vefsíðum skólans:
Einelti – Eineltisteymi
Skilgreining á einelti
Einelti er ofbeldi, líkamlegt og/eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einum sem ekki kemur vörnum við. Einelti er endurtekið atferli og á sér stað reglubundið um lengri eða skemmri tíma. Einelti birtist í mörgum myndum. Það getur verið:
A. beint:
Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar, skemmdarverk
Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni.
B. óbeint:
baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahópi.
Eineltisteymi – hlutverk
Í Austurbæjarskóla er starfandi ráðgefandi eineltisteymi sem er kennurum til stuðnings við úrlausn eineltismála. Hlutverk teymisins er að vera faglegur ráðgjafi kennara í eineltismálum. Einnig eru fulltrúar teymisins kennurum til fulltingis í alvarlegum eineltisviðtölum, ef óskað er eftir því. Unnið er samkvæmt kerfi Olweusar og hans aðferðafræði beitt í viðtölum við gerendur, þolendur og foreldra. Teymið miðlar sérfræðiþekkingu og heldur saman upplýsingum. Teymið getur vísað málum til nemendaverndarráðs ef það telur þess þörf.
Eineltisteymi – fulltrúar
Kristín Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Olweusarverkefnis
Kristín Jóhannsdóttir, deildarstjóri
Erla Dögg Ásgeirsdóttir, námsráðgjafi
Eiríkur Brynjólfsson, sérkennari
Sigrún Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Forvarnir gegn einelti-samvinna heimilis og skóla
Skólinn er þátttakandi í Olweusáætluninni gegn einelti. Í þeirri áætlun felst virk samvinna heimilis og skóla í forvörnum gegn einelti og viðbrögðum við einelti ef það kemur upp.
Foreldrabæklingur
Í tengslum við Olweus-verkefnið er gefin út handbók fyrir foreldra þar sem er að finna upplýsingar um einelti, birtingarform þess og hvernig bregðast skuli við því. Bæklingurinn er afhentur foreldrum á haustfundum og liggur frammi á skrifstofu skólans.
Meðferð eineltismála
Þegar vitneskja berst um að nemendur séu lagðir í einelti í skólanum fer ákveðið ferli af stað. Þessi vitneskja getur komið frá starfsfólki skólans, nemendum eða foreldrum:
– Umsjónarkennara eða umsjónarkennurum er gerð grein fyrir málinu.
– Umsjónarkennari athugar málið. Hann skal leita eftir upplýsingum sem víðast svo sem hjá starfsfólki, foreldrum og nemendum.
– Ef umsjónarkennari, eftir slíka athugun og í samráði við t.d.eineltisteymi, metur það svo, að um einelti sé að ræða skal foreldrum þeirra nemenda sem hlut eiga að máli gerð grein fyrir því. Gildir það jafnt um gerendur og þolendur.
– Innan skólans fer síðan af stað markviss vinna skv. aðferðafræði Olweusar. Hún felst m.a. í alvarlegum viðtölum við gerendur þar sem þeim er gerð skýr grein fyrir viðbrögðum skólans og þeim afleiðingum sem áframhaldandi háttarlag mun hafa. Þolendum skal tryggt öryggi eftir því sem kostur er og í samvinnu við foreldra þeirra skapað öryggisnet sem hindrar áframhaldandi ofbeldi.
Einelti upprætt
Viðbrögð við einelti af hvaða toga sem er, misalvarlegu eftir atvikum, ættu alltaf:
– Að vera skýr, einlæg og nákvæm, laus við niðurlægingu, kaldhæðni, árásir, hótanir eða þvinganir.
– Að birtast tafarlaust og vera fylgt eftir til lengri tíma.
– Að fela í sér skráningu á atburðum, þátttakendum og viðbrögðum.
– Að fela í sér samvinnu við foreldra strax á fyrstu stigum íhlutunar.
– Að veita nemendum tækifæri til að ræða sín á milli mögulegar lausnir og efla vitund þeirra um ábyrgð sína.
Ætíð er unnið samkvæmt Olweuskerfinu við meðferð eineltismála.